15 október 2008

Banka - kreppa...

Gamla fólkið á elliheimili úti á landi var orðið afar þrúgað og meðtekið af efnahagsbölsýnis-síbyljunni í fjölmiðlunum.
Forstöðukonan hafði sverar áhyggjur af þessu.
Í morgun var leikfimi á heimilinu. Forstöðukonan bað íþróttafræðinginn að vera nú heldur á léttu nótunum og fyrir alla muni ekki minnast á efnahagsmál eða þrengingar.
Þetta væri alveg að fara með gamla fólkið.
Íþróttafræðingurinn sagði það ekki nema sjálfsagt.
Svona hóf hann tímann:
"Kæru vinir! Í dag byrjum við á mjög léttri æfingu. Við réttum hendur út frá hliðunum, beygjum olnbogana og bönkum flötum lófum létt á bringuna, síðan réttum við úr höndunum og kreppum snöggt hnefana og endurtökum allt aftur og aftur," og svo hrópaði hann:
"Koma svo! Banka - kreppa, banka - kreppa, banka - kreppa......!"


ps. tileinkað Júlla

23 september 2008

Komin heim frá Finnlandi


Þá er maður víst kominn heim frá Finnlandi, þetta var ágætis túr. Hvað ég var að flækjast þar? Þetta var norrænt almanna-trygginganámskeið, en þau eru haldin með reglubundnu millibili. Nokkrar myndir úr túrnum er að finna á Facebook. Stoppaði stutta stund í Køben á leiðinni heim og hitti Jón Arnar, Ingunni og Eirík og að sjálfssögðu nýjasta frændan hann Viktor Bjarkar.
Nú er félagsmála törnin að byrja á  fullu og var ég við stjórnarskipti hjá Kiwanisklúbbnum Elliða var það hin notalegasta stund. 
Héðan úr sveitinni er allt gott af okkur að frétta. Næstu helgar verða undirlagðar af námskeiðum í bogfimi en ég er að kenna þar ásamt félaga mínum honum Inga Bjarnar. Fullbókað er á námskeið fram í nóvember. Sem sagt alveg nóg að gera og engin þörf á að kvarta yfir aðgerðarleysi.

12 september 2008

Heimurinn ekki farinn til fjandans ennþá ??

Er heimurinn að farast ef þið vitið það ekki þá er svarið hér. Það er greinilegt að sumir hafa húmorinn í lagi.

Það hefur orðið mikið grín á vefnum í kringum þessa tilraun CERN


Annars er ég að skreppa til Finnlands núna á sunnudaginn og verð fram á fimmtudag.

16 júní 2008

Ekki að verða vitlaus

Stundum líður manni svona eins og í þessum gamla gullmola. Datt niður á þetta við að lesa allar "bansafréttirnar" frá því í dag. Það eru bara birnir á ferð hálfsmánaðarega. Ég hafði ekki heyrt fréttir fyrr en síðdegis í dag og hélt ég væri orðin vitlaus. Annar björn á ferðinni!?!



Annars er allt gott að frétta af okkur, ekkert sérstakt að gerast. Jú annars hvaða vitleysa ég hef verið upptekin undanfarna fjóra daga með góðum vinum frá Dannenberg í Þýskalandi H. Ganswindt og frú, en þau millilentu hér á leið sinni til Kanada.

14 maí 2008

Félagsmálafrík

Það má nú ekki spyrjast að maður hætti alveg að skrifa hérna. En það er kominn tími til. 
Ég var að halda aðalfund í klúbbnum okkar hér í sveitinni og nú er bara eftir að fara á þing Kiwanis norður á Krók um næstu mánaðarmót. Eftir það getum við farið að slappa af. OMG hvað ég verð feginn. Það er nú ekki þar með sagt að ég sé endanlega laus þó að starfsárinu sé að ljúka. Tveir fundir eru eftir í haust og eftir það tekur við nýtt embætti sem greint verður frá seinna. Ég er víst einn af þessum mönnum sem kann ekki að segja nei.
Ein af  systrum  mínum segir að ég sé "ofvirkur í félagsmálum". Gott að vera ofvirkur í einhverju ;)

03 apríl 2008

Langaði ekkert að koma heim


Jæja þá er maður kominn heim frá Færeyjum. Þetta var fín ferð alltaf gaman að koma til Færeyja.
Ferðin hófst föstudaginn 28. mars sl. er við flugum til Vága og lentum þar um kl. 15:00 og var farið beina leið til Tórshavn en áætur Kiwanisfélagi Sámal Bláhamar sá um að flytja hópinn sem var um 40 manns allt í allt. Dagin eftir var svo haldið á svæðisráðsfund en það var tilgangur ferðarinnar. Þess má geta að ég var fundarritari og hafði nóg að gera. Á sunnudeginum var farið í ferð til Sandeyjar og heimsóttum við bæinn Skálavík. Tilgangur þessarar ferðar var að afhenda styrk frá Styrktarsjóði Kiwanis en hann rann til barnaheimilisins Leikan í Skálavík. Eins og kunnugt er varð mikið tjón í miklu óveðri í febrúarbyrjun í Færeyjum og varð Skálavík verst úti. Styrkum við Leikan um eina milljón króna. Það var virkilega gaman að koma þarna. Skálavíkingar minntust með miklu þakklæti á þann stuðning sem þeir hafa fengið frá Íslandi. Í bakaleiðinni var komið við í Kirkjubæ en þangað hafði ég aldrei komið og var það virkilega gaman. Dvöldum við þar drjúga stund við að skoða staðinn.
Nú var komið að seinasta deginum en þá fór hópurinn í ferð á Eysturøy en ég og tveir aðrir nenntum ekki með. Hafði farið þetta áður árið 2005. Eyddum við morginum í göngutúr um Þórhöfn og sáum ekki eftir því. Fórum um eittleitið út á flugvöll en við áttum að fjúga heim kl. 16:30. Vélin fór á áæltun en eftir u.þ.b. 20 mínútna flug var snúið við aftur vegna bilunar. Máttum við bíða til kl. 19:00 og vorum ekki lentir í Reykjavík fyrr en um 20:30. Sem sagt fór tvisvar til Færeyja í sama túrnum.
Myndir úr túrnum er hægt að sjá hér.

06 mars 2008

Mót, námskeið og fleira


Það er nú orðið nokkuð síðan ég skrifaði hér síðast, en undanfarnar vikur hefur verið mikið að gera. Um síðustu helgi var ég t.d. mótstjóri á svokölluðu Internetmóti ÍFR og MTV Dannenberg og er þetta í fjórða skipti sem það fer fram. Mótið fer þannig fram að paraðir eru saman þátttakendur einn frá ÍFR og einn frá MTV og þeir keppa innbyrðis. Alls tóku 34 þátt að þessu sinni 17 frá hvoru félagi. Þegar keppni líkur þá eru úrslit send strax til mótherjans og við móttókum úrslit þeirra og röðuðum saman. Niðurstöðu má sjá á síðunni sem ég vísaði til hér áður.
Ég hef nú ekki lagt það í vana minn að fjalla hér um vinnuna, en hef staðið í ströngu í dag í að aðstoða og vera með fyrirlestur á námskeiði, sem haldið var fyrir umboðsmenn TR og má segja að allur vindur sé úr manni eftir svona dag.
Um næstu mánaðarmót verður skroppið til Færeyja eina helgi á vegum Kiwanis og er mann strax farið að hlakka til.